9. september er það heillin
Já það styttist ansi mikið í að ég yfirgefi land og þjóð. Ég er búin að ráða mig í þróunarstarf á Indlandi, nánar tiltekið í borginni Chennai (Madras) sem er á Suður-Indlandi. Þar verð ég að vinna hjá stofnun sem heitir Madras Dyslexia Association við það að kenna grunnskólabörnum með dyslexiu. Svolítið ólíkt því sem ég hef verið að braska við að læra í háskólanum undanfarin 5 ár en hvað um það, þetta verður án efa lærdómsríkt og skemmtilegt.
Ég er hætt í apótekinu og reyni nú að nýta þessa síðustu daga fyrir brottför til hins ítrasta. Enda ýmislegt sem þarf að huga að við undirbúning. Er búin að fá þúsund og eina sprautu við ótrúlegustu sjúkdómum. Japanska heilahimnubólgusprautan fór hvað verst í mig og var ég eins og versti lyftingarkappi á vinstri upphandlegg í viku á eftir. Kannski ekki svo smart þegar hægri handleggurinn var eins og strik í samanburði við hinn.
Svo er ég búin að sækja um visa, panta flugmiða, fá tryggingarskírteini, versla ferðalagsföt, fá lyfseðla upp á 1 malaríulyf sem er hriiiikalega dýrt en gott og annað sem er ódýrt en með leiðinlegar aukaverkanir. Er enn óákveðin hvað skuli gera í þeim efnum. Ég verð örugglega með lítið útibú frá Lyfju í flugfreyjutöskunni minni miðað við listann af öllum apóteks-"nauðsynjunum" sem ég er búin að útbúa.
En jæja, þarf að fara að huga að kvöldmat. Meira síðar.
3 Comments:
hlakka rosa mikið til að fylgjast með hérna. Gangi þér vel frænka. Kv. Laufey
Góða ferð og gangi þér allt í haginn;)
kveðja, Íris.
Biðjum kærlega að heilsa og gangi þér vel.
kveðja.
Bergur
Hrefna
Sverrir óli
óli magni
Sverrir
og Guðveig
Skrifa ummæli
<< Home